top of page
  • Writer's pictureAnna María

Snjallir nemendur

Að frumkvæði nokkurra öflugra kennara hefur verið umræða um mikilvægi þess að fjölmiðlar fái jákvæðari mynd af því starfi sem á sér stað í skólum í dag og þá sérstaklega hvað varðar notkun á tækni í námi. Þegar fjölmiðlar tala um tækni í skólum þá er það alltaf vegna tölvufíknar nemenda, versnandi hæfni drengja í lestri og svo niðurstöður í Pisa prófum (þekkingarmiðlunin er sem sagt á undanhaldi í skólunum), ofbeldi gagnvart starfsfólki skóla og svo framvegis. Allt eða flest á að vera tengt nútímalegri kennsluháttum og tækjum í skólastarfi. Það fjallar engin um öll þau tækifæri sem myndast með notkun tækninnar í skólunum. Það eru kannski 5% nemenda sem eru í vandræðum með tækin en hin 95% eru að gera svo flott verkefni að við kennararnir eigum varla til orð yfir hugmyndafluginu, færninni og metnaðinum sem þessir nemendur sýna í verkefnum sínum. Þeir nota tækin til að búa til eigin tónlist sem þeir setja í myndböndum í ensku, þeir rappa danska texta með hjálp forrita, þeir taka upp myndbönd í samfélagsfræði í sögulegu umhverfi með hjálp Green screen og svo mætti lengi halda áfram. Bara svo að það sé á hreinu, þá var þetta ekki mögulegt í nemendaverkefnum fyrir örfáum árum. Þá skrifuðu nemendur oftast bara ritgerðir og stíla eða gerðu veggspjöld ef að þeir voru heppnir.

Vegna þessarar ömurlegu umræðu um tækin í skólunum hafa nokkrir kennarar tekið sig saman og ætla að reyna að finna leið til að breyta þessu. Á sunnudaginn milli 11 og 12 ætlum við að hittast á Twitter og ræða saman (notum #menntaspjall) um leiðir til þess. Það er öllum velkomið að taka þátt sem vilja og hafa þekkingu á þessu efni. Það má líka bara fylgjast með umræðunni án þess að tjá sig ef að einhver kýs það. Ég nota alltaf vefsíðuna Tweetdeck.twitter.com þegar ég tek þátt í svona spjalli, því að mér finnst ég hafa betri yfirsýn yfir allt það sem er að gerast á þessum klukkutíma. Eftir spjallið ætlum við að deila verkefnum nemenda okkar á facebook síðunni #snjallirnemendur og við munum líka deila verkefnum á Twitter með sama myllumerki. Við viljum líka hvetja alla kennara sem eru að gera eitthvað sniðugt með tækjunum (spjaldtölvum, Chromebook eða PC) að deila með okkur hinum á sama hátt. Ef að við getum snúið við þeirri neikvæðu mynd sem fjölmiðlar sýna af notkun tækja í kennslu, þá er mikils að vinna.

Álfhildur Leifsdóttir er ein af þeim sem stendur að þessu átaki. Hún heldur úti vefsíðunni alfhildur.com sem óhætt er að mæla með. Nýjasta færslan hennar er einmitt um þetta átak og jákvæða umræðu um notkun tækni í skólum https://alfhildur.com/snjallir-nemendur/. Á síðunni er fyrirlestur sem hún sendi út og ég mæli sko eindregið með að eyða tíma í að hlusta á. Þarna sýnir hún á svo skýran hátt af hverju við eigum ekki að hlusta á úrtöluraddir um þetta málefni, hún tala um tilganginn með notkuninni og hún sýnir nokkur frábær dæmi um nemendaverkefni sem ekki hefðu verið gerleg án tækninnar. Við erum svo heppin hér á landi að eiga aragrúa af flottum kennurum og er Álfhildur klárlega einn af þeim allra bestu.

127 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page